ÍSLANDSVÍSUR

(tileinkaðar hinum háttvirtu
þingmönnum á Alþingi, 1901)

Ég vil elska mitt land,
ég vil auðga mitt land,
ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.
Ég vil leita' að þess þörf,
ég vil létta þess störf,
ég vil láta það sjá margan hamingjudag.

Hver þess fjörður er minn,
hver þess fjalldalur minn,
því ég finn ég er tengdur hvert hérað þess við.
Hver þess bær er mér kær,
hver sá bátur mér kær
sem með blikandi segl rennur fram á þess mið.

Þessum holtum ég ann,
þessum heiðum ég ann,
þessi hraun eru mein sem að græða mér ber;
þessi fannþöktu fjöll
eru fornvinir öll
og hver fossandi smálækur vinur minn er.

Ég vil frelsi míns lands,
ég vil farsæld míns lands,
ég vil frægð þess og gnægð þess og auð þess og völd;
ég vil heiðursins krans
leggja' að höfði hvers manns
sem vill hefja það fram móti batnandi öld.

Gegnum leiki og ljóð
vil ég lífga hjá þjóð
hina ljúfustu trú, hina djörfustu von,
ég vil glæða þar ást
þá er ætíð mun sjást
þar sem elskandi móðir á trygglyndan son.

Þetta' er játningin mín
kæra móðir til þín. -
Ég get miklast af því að ég sonur þinn er.
Það er svipurinn þinn
er í sál mér ég finn.
Hann er samgróinn öllu því besta hjá mér.

Ég kem fram á þinn fund
þessa fagnaðarstund
eins og frjálsborinn sonur sem elskar þig heitt;
og að fótum á þér
ég sem fórn mína ber
það sem fegurst og best hefir lífið mér veitt.

En ég bið ekki' um neitt. -
Jú, ég bið þig um eitt:
gef mér baráttukjark, gef mér styrkvari mund.
Lyftu blæju frá brá,
lát mig brosið þitt sjá. -
Ó, ég berst til þíns láns fram að síðustu stund.

Guðmundur Magnússon ( Jón Trausti)



Sendiš mér gjarnan póst ef žiš finniš villur ķ textunum
en takiš gjarnan fram viš hvaša texta er įtt.